Dásamlegar Dagatalsdömur gleðja…..og gleðja.

Hið kraftmikla Freyvangsleikhús frumsýndi leikverkið Dagatalsdömurnar eftir Tim Firth í leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Þann 1. febrúar s.l.

Leikritið er tileinkað ötulum félaga úr Freyvangsleikhúsinu, Hjördísi Pálmadóttur sem lést úr krabbameini 2011. Öll laun fyrir höfunda og sýningarrétt renna óskert til rannsókna á sjúkdómnum og einnig hefur Freyvangsleikhúsið ákveðið að gera enn betur og ánafna Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis hluta af miðasölu og hluta af sölu fallegs dagatals sem hefur verið gefið út.

Dagatalsdömurnar er frásögn af sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í uppsveitum Englands rétt fyrir aldamótin. Krabbamein er sjúkdómur sem dregur fleiri til dauða en nokkuð annað. Krabbamein er alls staðar og það geta allir fengið það. Að missa ástvin úr krabbameini er hræðileg upplifun. Á svoleiðis stundum er gott að eiga góða vini, sem skilja mann og vita hvað þarf að gera til að hjálpa. Það er þörf upplifun fyrir landsmenn að skreppa í Freyvang og sjá hvernig alvöru ástvinir fórnarlambs krabbameins, heiðra minningu þess sem lést og létta sína eigin lund í leiðinni. Leikritið var valið besta gamanleikritið í Englandi árið 2010.

Leikarar í “Dagatalsdömunum” eru hæfileg blanda af blanda af reynsluboltum og nýju hæfileikaríku fólki. Það er alveg ljóst að leikstjórinn Sigrún Valbergsdóttir hefur unnið mikla og góða vinnu og náð afar vel til leikaranna. Flestar senurnar einhvern veginn svo réttar og hárfínar, jafnt gleði sem sorgarstundirnar. Ég er nokkuð viss um að æfingatímabilið hefur verið skemmtilegt og gefandi og mig grunar að margt sem hefur “óvart” gerst á æfingum hefur verið notað að lokum. Gleðin og einlægnin skilar sér fram í sal og með áhorfendum út í nóttina. Prik til leikstjórans.

Leikhópurinn er samrýmdur og fallegu kvenfélagskonurnar ná vel saman og treysta hver annari og leika allar mjög vel. Ég verð samt að minnast á eina eða tvær. Inga María Ellertsdóttir fer á kostum í hlutverki Kristínar, hún nær vel til áhorfendanna og nýtur þess sem hún er að gera. Linda Guðmundsdóttir í hlutverki Dóru er traust og hrífandi. Stefán Guðlaugsson sem leikur Robba manninn hennar Kristínar er frábær leikari og hrikalega fyndinn, Ingólfur Þórsson, Sigríður Jóna Pálsdóttir og Haukur Guðjónsson eru líka eftirminnileg , Sigríður skondin sem Berta Höskulds, Ingólfur er góður sem Jón Karlsson sérstaklega þegar líður á veikindin, Haukur ljáir Lárusi ljósmyndara skemmtilegan karakter.

Það örlaði á smá frumsýningarhökti en varla til að minnast á, þetta er eitthvað sem slípast til á einni til tveimur sýningum. Eftir hlé fannst mér koma smá kafli þar sem að dampurinn datt aðeins niður, hvort að það skrifast á verkið sjálft þar sem að það er kannski aðeins of langt eftir hlé eða á frumsýninguna er ekki gott að segja. Þetta er stuttur kafli og mér sýndist nú á áhorfendum að hefði ekki mikil áhrif.


Lýsingin er fagmannlega gerð og skilar sínu hlutverki, það sama má segja um hljóðmynd og búninga (Þegar þeir eiga við) . Leikmyndin er einföld og margt vel gert eins og t.d. blómin á hólnum og fleira. Ég ætla líka að minnast á aðra umgjörð, auglýsingar, leikskrá, starfsfólk í móttöku, markaðsmál og fleira er til fyrirmyndar og allir að vinna með hjartanu fyrir leikfélagið sitt.
Það var mikið hlegið og klappað á frumsýningunni og eflaust sáust líka tár á hvarmi. Þetta er sýning sem ég mæli kinnroðalaust með og þeir sem vilja hlæja og hlæja meira eiga ekki að hugsa sig tvisvar um. Sýningin styrkir gott málefni, andann, hjartað og eflir blóðflæðið. Nú ætla ég ekki að uppljóstra miklu sem ber fyrir augu í þessari skemmtilegu sýningu en eitt get ég fullyrt að það er fallegt og þið skuluð ekki missa af því.

Til hamingju allir aðstandendur.
Júlíus Júlíusson.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s