Leiklistarrýni í Vikudegi 1.mars:

Slegið á strengi minninga og mannlegs lífs

Freyvangsleikhúsið hefur á liðnum árum ráðist í hvert stórvirkið á fætur öðru. Leikhúsáhugafólk hefur getað gengið að því sem vísu að ferð á sýningar í Freyvangi veiti því þá stundargleði sem góð leikrit og söngleikir gera. Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson er söngleikur byggður upp í kringum þekkt dægurlög sem nutu vinsælda á þeim tíma sem leikurinn gerist einhvern tíma í kringum 1961. Þar segir frá músíkalskri kaupmannsfjölskyldu í Vesturbæ Reykjavíkur sem reynir að takast á við ýmsan vanda sem að höndum ber og um leið glímir hún við erfiða drauga fortíðar.

Þrek og tár er þroskasaga Davíðs Einarssonar, unga mannsins í fjölskyldunni, en við fylgjum honum frá unglingsárum þar til hann snýr aftur heim til Íslands úr tónlistarnámi erlendis þar sem kona og barn bíða hans með opinn faðminn. Ferð okkar um land minninganna er varðað lögum eins og Þrek og tár, Heimþrá og Í rökkurró. Nær allir þátttakendur í sýningunni fá að spreyta sig í söng og dansi og tekst oftar en ekki vel til. Sérstaklega þótti mér gaman að söng Óla Steinars Sólmundarsonar, eða Davíðs, í balanum og líflegum og öruggum söng og leik Símonar Birgis Stefánssonar í hlutverki Gunna „Gæ” Jóhannssonar.

Samskipti og átök þeirra frænda Davíðs og Gunna „Gæ” virtust um tíma ætla að stefna Vesturbæjarfjölskyldunni og öðrum nákomnum henni í glötun með dramatískum hætti. Inn í þau átök blönduðust aðrar persónur verksins með mismiklum hætti og ber þá sérstaklega að nefna Sjöfn Snorradóttur í hlutverki Sigríðar Lárusdóttur og Stefaníu Sigurdís Jóhönnudóttur í hlutverki Margrétar Halldórsdóttur Fengel. Samleikur Símonar, Gunna „Gæ” og Stefaníu, Margrétar Fengel, var tvímælalaust einn af hápunktum kvöldsins en þarna eru klárlega á ferðinni mikil efni og vonandi eigum við eftir að sjá þau stíga aftur á svið hér norðanlands og það frekar fyrr en síðar. Innkoma Stefaníu í samleik með Óla Steinari þar sem hún fer á kostum í ástarjátningum sínum á dönsku er óborganleg og eitt af eftirminnilegri atriðum sýningarinnar.

Þáttur Helgu Daggar Jónsdóttur í hlutverki söngkonunnar, og húsmóðurinnar Helgu Jóhannsdóttur, einu af burðarhlutverkum verksins, var líka með miklum ágætum. Sömuleiðis komst Ingólfur Þórsson vel frá sínu í hlutverki afans Jóhanns Árnasonar. Úlfhildur Örnólfsdóttir í hlutverki Ameríkufarans Kristínar „Diddu” Jóhannsdóttur átti virkilega góða spretti og sama má segja um Sædísi Gunnarsdóttur en hún skilaði hlutverki Frú Báru Fengel með miklum sóma. Frú Bára og eiginmaðurinn Hallur Fengel, leikinn af Hjálmari Arinbjarnarsyni, voru virkilega skemmtilegar týpur í skrautlegu persónugalleríi verksins. Jóhanna Ingólfsdóttir gerði harmsögu Vilhelmínu Finnsdóttur afbragðs góð skil. Kristinn Darri Þorsteinsson í hlutverki Árna Jóhannssonar átti sínar „stundir” í leiknum og gaman að sjá hann og heyra „slá í gegn” í beinni útsendingu.

Eiginmennirnir Einar (Árni Jökull Gunnarsson) og Gauti (Óðinn Snær Björnsson) skiluðu sínu með prýði. Sindri Snær Konráðsson átti fína spretti sem rödd húmanismans í hlutverki Áka Hansen. Arnfríður Kjartansdóttir sýndi góð tilþrif sem Malla í Mjólkó og sömuleiðis var Róbert Ólafsson röskur sem Guðmundur Guðmundsson. Vesturbæingarnir Embla Björk Jónsdóttir, Níels Kristinn Ómarsson, Hjalti Snær Árnason og Linda Björk Þorsteinsdóttir stóðu fyrir sínu og ekki má gleyma glæsilegri innkomu hljómsveitarinnar á sviðið auk þess að keyra sýninguna áfram með öruggum söng og hljóðfæraleik. Búningar og leikmunir voru í anda þess tíma sem verkið gerist á og hefur alúð verið lögð í litaval og sviðsmynd sem er einn geimur en „skipt í miðju” og hallar undan fæti. Ljósin eru notuð á fjölbreytilegan og hnitmiðaðan máta til að afmarka leikrými og skerpa atriði sem þurfa að skera sig úr.

Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvað saga af fjölskyldu í Vesturbænum í Reykjavík fyrir meira en hálfri öld eigi erindi norður yfir heiðar. Það verður þó að segjast að verkið tekur á mörgu því sem enn er ofarlega á baugi um allt land og um víða veröld s.s. ást, afbrýði og ofbeldi, söng og gleði, vonbrigðum og draumum fólks, sigrum þess og ósigrum. Söngleikurinn er í heild vel upp settur og flutningur allur með ágætum. Ljóst er að ekki er hlaupið að því að manna svo fjölmenna og krefjandi sýningu og til að takast á við sviðsetninguna hefur þurft þrek og kjark þótt ekkert sé fullyrt með tárin. Ólafur Jens Sigurðsson leikstjóri hefur enn einu sinni unnið þrekvirki með leikurum og öðru starfsfólki Freyvangsleikhússins. Allir velunnarar góðs leikhúss eru hvattir til að gera sér ferð í Freyvang og njóta afraksturs grósku mikils starfs allra sem að sýningunni koma.

Ágúst Þór Árnason

vikudagur18

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s