Eins og glöggir lesendur okkar vita þá er leikritið Dagbók Önnu Frank í sýningu á fjölum Frevangsleikhússins þessa dagana. Dagbókin var fyrst gefin út árið 1947 og fór sigurför um heiminn. Kom svo fyrsta leikgerðin eftir Albert Hackett og Frances Goodrich út skömmu á eftir og hefur verið sýnd um allan heim.
Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni, en upphaflegu úgáfunni var ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar. Útgáfa þessara nýju kafla varð til þess að tími var til kominn að uppfæra leikgerðina og var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið.
Þegar ákveðið var að Freyvangsleikhúsið myndi setja upp Dagbók Önnu Frank undir leikstjórn Sigurðar Líndal voru allir á sama máli um að koma þessum nýju köflum að. Til þess þurfti að þýða uppfærslu Wendy Kesselman og var Ingunn Snædal fengin í verkið sem leysti verkefnið, að okkar mati, snilldarlega.
Ingunn skrifar:
Það er næstum því yfirþyrmandi að vera beðin um að skrifa nokkur orð um þýðinguna á þessu leikriti, þessa sögu sem öll heimsbyggðin þekkir. Hvað get ég mögulega sagt um Dagbók Önnu Frank sem hefur ekki verið sagt áður?
Að mínu viti var löngu tímabært að þýða þessa endurskoðuðu útgáfu Wendy Kesselman af leikritinu. Í henni er reynt að takast á við málefni úr bókinni sem þóttu of viðkvæm eða óviðeigandi þegar leikritið var upprunalega samið. Við þýðingarvinnuna las ég fyrri útgáfuna með það fyrir augum hvort hægt væri að nota hana og gera aðeins breytingar til samræmis við endurskoðuðu útgáfuna. Ég sá fljótt að það var útilokað. Eiginlega finnst mér þetta leikrit vera meira en endurskoðuð útgáfa; þetta er eins og nýtt leikrit. Það er í sjálfu sér ekki skrítið að í leikritinu sem samið var upp úr 1950, skömmu eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk, væri aðaláherslan lögð á hið göfuga í manninum og sigur mannsandans yfir hinu illa, en það var alls ekki aðalstef dagbókarinnar. Anna í nýju útgáfunni á meira skylt við þá sem birtist í bókinni; hún er fyndin og háðsk, greind og gagnrýnin en líka uppátækjasöm, ráðvillt, hormónasjúk og sveiflast í skapi. Eins og unglingar gera. Unglingurinn í mér tengdi alveg við það. Sömuleiðis fá aðrar persónur leikritsins meira og fyllra líf þegar aðaláherslan er ekki lengur á hið göfuga og góða, heldur á manneskjurnar sem raunverulegar, heilsteyptar persónur.
Það er mikið afrek að skrifa leikrit upp úr sögu sem allir þekkja og allur heimurinn veit að endar með ósköpum, og gera það þannig að áhorfandinn fyllist samúð með hverri einustu persónu og fylgist af áhuga með lífi þeirra þessa stund. Það finnst mér þó takast í útgáfu Kesselman, á köflum sogaðist ég þannig inn í söguþráðinn að líf fólksins á loftinu yfirgnæfði örlög þeirra, þau voru bara venjulegar manneskjur í ómanneskjulegum aðstæðum, fólk sem sýndi mannlega reisn þrátt fyrir breyskleika sína og bresti.
Mig langar að lokum að hrósa leikstjóranum og leikhópnum fyrir að takast þetta á hendur, þessi saga á alltaf erindi við alla og það er nauðsynlegt að rifja hana upp fyrir nýjum kynslóðum á voveiflegum tímum.
Ingunn Snædal
Dagbók Önnu Frank verður sýnt í Freyvangsleikhúsinu á föstudags- og laugardagskvöldum allar helgar fram á vor.
Hægt er að nálgast miða í síma 857-5598 og á tix.is
