Á vordögum setur Freyvangsleikhúsið upp Fólkið í Blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Margir kannast við sögurnar af þessu fólki sem býr í sömu blokk. Um er að ræða hálfgert smásagnasafn sem kom fyrst út á bók 2001.
Leikgerðin var fyrst sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur 2008 og var fylgt eftir með diski með lögunum úr verkinu, Í leikgerðinni er sagan nokkuð breytt frá bókinni, þó að persónur séu að miklu leiti þær sömu og húmorinnn sá sami.
Árið 2013 var svo sýnd 6 þátta sería á RÚV um þessar persónur sem var hvorki nákvæmlega sama saga og bókin og ekki heldur sama saga og leikverkið. En nánar að verkinu sjálfu.
Fólkið í Blokkinni er hjartnæm saga af skrautlegu lífi fólks í blokk sem ákveður að setja upp söngleik og efniviðurinn er það sjálft.
Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóna sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn og hefur almennt allt á hornum sér
Sjarmörinn Hannes reynir allt hvað hann getur að ganga í augun á Söru.
Tekst þeim að frumsýna söngleikinn?!
Ná Sara og Hannes saman?!
Hver á skjaldbökuna í baðkarinu?!
…og hvar er fjarstýringin?!!!
Öllum þessum spurningum nema einni verður svarað 24. febrúar og svo um hverja helgi eftir það fram á vorið.