Vínland
Nú ætlum við að sýna stór söngleikinn Vínland eftir Helga Þórsson á bíó tjaldinu í Freyvangi. Þá er við hæfi að taka aðeins saman ummæli um sýninguna þegar hún var í gangi.
Úr ummælum um leiksýninguna Vínland:
Virkilega góð sýning! Tónlistin góð og textarnir mjög skemmtilegir. Allir leikarar standa sig með einstakri prýði. Sviðsmyndin er stórkostleg og búningarnir meiriháttar og ljóst að mikið fjármagn og vinna hafa farið í undirbúning fyrir þetta verk. Það er sko alveg þess virði að sjá þetta verk.
P.S. Mér finnst nú reyndar að allir landsmenn ættu að slá til, skreppa á Norðurland og eyða helginni inn á milli fagurra fjalla, í rómantískum rjóðrum dalanna eða í kvöldroðanum við pollinn. Þar er alltaf jafn fallegt hvort sem er að vetri eða sumri. “Sjá Vínland í Freyvangi” Sjáumst í Eyjafirði!! – H. Þorbjörg Jónsdóttir
Vínland er fjölmennur söngleikur eftir Helga Þórsson sem gerist á tímum víkinga meðal norrænna manna á Grænlandi og svo færist sögusviðið yfir til Vínlands í Ameríku. Sagan fjallar um; ástir og örlög, kristni og heiðni, víkinga og indjána, gleði og sorgir en umfram allt mennskuna sem alltaf er söm við sig í gegnum allar aldir.
Rokksöngleikurinn Vínland hefur fengið frábæra dóma.
Þetta var meiriháttar, þegar þetta var kynnt á dögunum urðu þvílík fagnaðarlæti, það var eins og Óskarinn væri kominn í höfn,“ segir Helgi Þórsson, en rokksöngleikurinn Vínland, sem hann er höfundur að, var valinn athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Helgi er forsprakki hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir og er Vínland byggt á verkinu Landnám eftir sveitina. Söguþráður verksins er spunninn upp úr Grænlendingasögu.
Verkið var sett upp í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit, en þetta er í þriðja sinn sem Freyvangsleikhúsið er valið með athyglisverðustu áhugaleiksýninguna. Vínland verður sett upp á stóra sviði Þjóðleikhússins 12. júní næstkomandi og mætir Helgi þar með alla hljómsveit sína til að leika undir í sýningunni. „Músíkin í sýningunni átti upphaflega aðeins að vera leikin af bandi en svo þegar leið að sýningarlokum hér fyrir norðan var ákveðið að kýla á sýningu með lifandi hljómsveit. Þá fór eitthvað neistaflug í gang og það var ekki bakkað eftir það,“ segir Helgi sem hefur mjög gaman af samspilinu á milli hljómsveitarinnar og leikaranna.
Ekki er á döfinni hjá Helga að snúa sér alfarið að leikritaskrifum þrátt fyrir þessa velgengni. „Ég þarf að sinna minni gulrótarækt og rabarbaravínsbruggun og hinum áhugamálunum. Ég á alveg von á andanum aftur en það er aldrei að vita í hvaða formi hann verður.“ Vínland verður sýnt í Freyvangi í kvöld og á morgun og í Þjóðleikhúsinu 12. júní. ingveldur@mbl.is
Af ummælum um sýninguna má draga þá ályktun að þetta einstaka tækifæri til að sjá þessa mögnuðu sýningu sé eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Svona til gamans þá fylgir hérna að neðan viðtal sem var tekið við Helga Þórsson þegar ljóst var að Vínland var að fara í Þjóðleikhúsið.
Bíóið hefst kl.20 föstudaginn 12.maí og húsið opnar kl.19. Miðaverð 1.0000kr og barinn verður opinn.
Hlökkum til að sjá ykkur í Freyvangi.