Aðalfundur 2022

Aðalfundur Freyvangsleikhússins var haldinn 13. september síðastliðinn. Mæting var með ágætum, eða 21. Var þar nokkuð um nýja félaga sem teknir voru inn.

Formaður las svo upp skýrslu stjórnar um leikárið 2021-2022. Árið gekk merkilega vel þrátt fyrir mikinn uppgang covid í lok árs 21 og byrjun árs 22. Meðal annars kom fram að fyrsta fullskipaða æfingin fyrir Kardemommubæinn var 3 dögum fyrir frumsýninguna 4. mars.

Gjaldkeri fór í gegnum reikninga félagsins með fundinum. Fjárhagsleg staða félagsins telst nokkuð góð og kom síðasta leikár út í nokkuð góðum plús

Smávægilegar breytingar voru gerðar á lögum félagsins sem snúa að því að frá 1. október 2022 tekur félagið alfarið við rekstri félagsheimilisins. Bætist við lögin ein grein sem segir að stjórnin geti skipað hússtjórn sem hefur m.a. eftirlit með húsinu. Nánari útfærsla á hlutverki og skyldum hústjórnar verður svo skilgreind í sérstökum reglum fyrir hússtjórn.

Kosið var í stjórn. Kjósa þurfti 3 í aðalstjórn, þar sem einn gekk úr stjórn eftir eitt ár vegna annarra verkefna.

Nýir í aðalstjórn eru:

Sveindís María Sveinsdóttir, var áður í varastjórn

Aðalbjörg Þórólfsdóttir

Eyþór Daði Eyþórsson

Í aðalstjórn sitja áfram Jóhanna S. Ingólfsdóttir formaður og Gunnar Möller varaformaður

Í varastjórn voru kosnir, allir nýir

Katrín Ósk Steingrímsdóttir

Ormur Guðjónsson

Björgvin Kolbeinsson.

Freyvangsleikhúsið þakkar fráfarandi stjórnarmeðlimum vel unnin störf og óskar nýrri stjórn velfarnaðar.

Aðalfundur

Aðalfundur Freyvangsleikhússins er í kvöld 13.september kl.20 í Freyvangi.

Hlökkum til að sjá ykkur

https://www.facebook.com/events/453730480010723/?acontext=%7B%22event_action_history%22%3A%5B%7B%22extra_data%22%3A%22%22%2C%22mechanism%22%3A%22discovery_custom_tab%22%2C%22surface%22%3A%22bookmark%22%7D%2C%7B%22extra_data%22%3A%22%22%2C%22mechanism%22%3A%22your_upcoming_events_unit%22%2C%22surface%22%3A%22bookmark%22%7D%5D%2C%22ref_notif_type%22%3Anull%7D

Fjör í Freyvangi

Stuttverkaskemmtunin Fjör í Freyvangi

Nú fer að líða að hausti og ætlum við að byrja haustdagskrána okkar með Fjöri í Freyvangi.

Fyrsti hittingur er miðvikudaginn 31.ágúst kl.20.00 í Freyvangi.

Stuttverkaskemmtunin byggist á því að æfa upp nokkur frumsamin stuttverk/einþáttunga á stuttum tíma og setja á svið tvær sýningar. Áætlunin er að sýna 1.-2. Okt.

Á hitting koma því allir sem hafa áhuga á að taka þátt, hvort sem þú ert skrifandi, langar til að leikstýra, leika eða vera með í búningum, proppsi, sminki eða tækni málum.

Allir velkomnir, alltaf heitt á könnunni.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Haust 2022

Nú er haust dagskráinn okkar öll að skríða saman, hérna er sýnishorn af henni og er hún birt með fyrirvara um breytingar.

Ágúst.

31. Hittingur fyrir stuttverkaskemmtun.

September.

3. Harmonikudansleikur

13. Aðalfundur

Bingó

Æfingar fyrir stuttverka skemmtun

Október.

1.-2. Sýningar á stuttverkaskemmtun

22. Fyrsta vetrardags tónleikar. Verk Eiríks Bóassonar.

Æfingar fyrir Karíus og Baktus

Nóvember.

Æfingar á Karíus og Baktus

26. frumsýning á Karíus og Baktus

Nánari upplýsingar um hvern viðburð fyrir sig verða svo auglýstar sérstaklega. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Freyvangi í haust.

Kveðja Stjórnin.

Gleðifréttir úr Kardemommubænum

Það er Freyvangsleikhúsinu mikið gleðiefni að tilkynna að styrktarsýningin þann 26.mars sl. skilaði kr.400.000.- sem búið er að afhenda fjölskyldunni. Félagið óskar þeim velfarnaðar í baráttunni og þakkar þeim fjölmörgu sem sóttu sýninguna eða styrktu með framlögum.

Frábær frumsýning á Kardemommubænum.

Kardemommubærinn var frumsýndur fyrir fullu húsi í gærkvöldi og við frábærar undirtektir. Óhætt er að segja að allir hafi farið af sýningunni með bros á vör og gleði í hjarta. það selst hratt á næstu sýningar svo gott er að tryggja sèr miða í tíma.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Kardemommubærinn

Loksins er allt að verða klárt í Kardemommubænum í Freyvangi og opnast bæjarhliðið föstudaginn 4. mars þegar öllu verður tjaldað til á frumsýningardegi. Æfingatímabilið hefur einkennst af skini og skúrum þar sem blessuð veiran hefur leikið suma bæjarbúa og ættingja þeirra grátt og ýmsar tafir orðið af þeim sökum. En með einstökum samtakamætti hefur tekist að skapa glæsilega sýningu og eru allir spenntir að fá gesti í heimsókn. Hlökkum til að sjá ykkur og góða skemmtun.

Örlítið um Kardemommubæinn

Næsta sýning Freyvangsleikhússins er Kardemommubærinn eftir Thorbjørn Egner. Kardemommubæinn þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hafa líklega flestir, sem komnir eru til vits og ára, séð hann á einhverjum tímapunkti.

Verkið er upprunulega skrifað fyrir barnatíma í norska ríkisútvarpinu og var flutt þar í nokkrum þáttum. Árið 1955 kom sagan svo út á bók með teikningum eftir Egner sjálfan. Þar má sjá útlit bæjarins og persónanna, útlit sem hefur verið haldið í flestum uppfærslum leikritsins síðan. Umhverfi bæjarins hjá Egner er svolítið suðrænt og tímalaust og sótti hann að eigin sögn innblástur til Ítalíu og Tyrklands

Ræningjarnir þrír, kasper, Jesper og Jónatan

Leikritið var fyrst sett upp 1956 og bíómynd kom út 1988.

Tónlistin í verkinu er öll eftir Egner sjálfan, fyrir utan eitt lag, söng Sørensen rakara sem er eftir Bjarne Amdahl.

Fullur titill verksins er í raun “Fólk og ræningjar í Kardimommubæ” (no: Folk og røvere i Kardemomme by) enda eru ræningjarnir þrír, Kasper, Jesper og Jónatan mjög áberandi. Þeir vaða uppi og ræna í bænum meðan Bastían bæjarfógeti þorir lítið að gera í málunum þar sem ræningjarnir eiga ljón og ekki vill bæjarfógetinn verða ljónamatur.

Aðrar eftirminnilegar persónur eru t.d. Soffía frænka, sem er frænka Kamillu litlu sem býr hjá henni, en er gjarnan kölluð frænka af öllum öðrum líka. Hún er mikill kvenskörungur og heldur upp aga í bænum.

Soffía frænka segir ræningjunum fyrir verkum

Bastían bæjarfógeti, lögreglustjóri bæjarins. Hann er góðmenni inn að beini og vill öllum vel, sumir myndu líka segja að hann væri hálfgerð gunga, enda er hann hálf hræddur við Soffíu Frænku og skíthæddur við ræningjana og þá sérstaklega við ljónið sem þeir eiga

Tobías í turninum. Hann býr í turni í miðjum bænum og notar hann til að gá til veðurs og spá fyrir um veðrið. Hann er einnig elsti og vitrasti íbúi Kardemommubæjar.

Tommi, Kamilla, Asninn Pontíus, Soffía Frænka og Tobías á leið á Kardemommuhátíðina.

Sjáumst svo öll í Freyvangi í vor.